Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 572. máls.

Þskj. 964  —  572. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um Hagþjónustu landbúnaðarins, nr. 63/1989,
lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993,
ábúðarlögum, nr. 80/2004, og lögum um búfjárhald, nr. 103/2002 (niðurlagning Hagþjónustu landbúnaðarins).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 63/1989, um Hagþjónustu landbúnaðarins.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
     b.      2. mgr. fellur brott.
     c.      Í stað orðanna „starfi Hagþjónustu landbúnaðarins“ í 3. mgr. kemur: framkvæmd þessara laga.
     d.      Í stað orðanna „henni er heimilt að afla sér“ í 3. mgr. kemur: aðila sem sinnir verkefnum með heimild í 3. gr. a er heimilt að afla sér.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hlutverk Hagþjónustu landbúnaðarins er“ kemur: Ráðherra skal hlutast til um hagþjónustu í landbúnaði sem hefur svofellt hlutverk.
     b.      1. tölul. orðast svo: Að annast hagrannsóknir í landbúnaði, eftir atvikum í samstarfi við stofnanir sem sinna sambærilegri starfsemi. Áhersla skal lögð á rannsóknir og úrvinnslu gagna sem nýtast við hagrænar leiðbeiningar til bænda og rannsóknir sem gagnast við stefnumótun og ákvarðanatöku stjórnvalda.
     c.      2., 3., 5. og 6. tölul. falla brott.

3. gr.

    Fyrirsögn I. kafla laganna verður: Yfirstjórn.

4. gr.

    II. kafli laganna fellur brott.

5. gr.

    Við lögin bætist nýr kafli, II. kafli A, Framkvæmd hagþjónustu landbúnaðarins, með einni grein, 3. gr. a, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að gera samning um framkvæmd verkefna samkvæmt lögum þessum við Landbúnaðarháskóla Íslands, Hagstofu Íslands, Háskóla Íslands eða annan hæfan aðila.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Orðin „og skulu þær hafa hliðsjón af viðmiðunargjaldskrá Hagþjónustu landbúnaðarins“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „Hagþjónusta landbúnaðarins“ í 3. mgr. kemur: Aðili sem sinnir verkefnum með heimild í 3. gr. a.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „stofnunarinnar“ komi: samkvæmt lögum þessum.
     b.      Orðin „og skulu greiðslurnar vera samkvæmt viðmiðunargjaldskrá sem landbúnaðarráðherra setur“ falla brott.

8. gr.

    8. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    Í stað orðanna „Stjórn og starfsmönnum Hagþjónustu landbúnaðarins“ í 9. gr. laganna kemur: Þeir sem sinna verkefnum samkvæmt þessum lögum með heimild í samningi skv. 3. gr. a.

10. gr.

    10. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um rekstur og tilhögun hagþjónustu landbúnaðarins.

12. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um hagþjónustu landbúnaðarins.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

13. gr.

    Í stað orðanna „forstöðumaður Hagþjónustu landbúnaðarins“ í 8. mgr. 7. gr. laganna kemur: aðili skv. 3. gr. a laga nr. 63/1989, um hagþjónustu landbúnaðarins.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Hagþjónustu landbúnaðarins“ í 2. mgr. kemur: Aðili skv. 3. gr. a laga nr. 63/1989, um hagþjónustu landbúnaðarins.
     b.      Í stað orðanna „Stjórn Hagþjónustu landbúnaðarins“ í 2. mgr. kemur: Aðili skv. 3. gr. a laga nr. 63/1989, um hagþjónustu landbúnaðarins.
     c.      Í stað orðanna „Hagþjónustu landbúnaðarins“ í 3. mgr. kemur: aðila skv. 3. gr. a laga nr. 63/1989, um hagþjónustu landbúnaðarins.

III. KAFLI
Breyting á ábúðarlögum, nr. 80/2004.

15. gr.

    2. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl.

16. gr.

    Í stað orðanna „Hagþjónustu landbúnaðarins“ í 1. mgr. 13. gr. laganna kemur: aðila skv. 3. gr. a laga nr. 63/1989, um hagþjónustu landbúnaðarins.

V. KAFLI
Gildistaka.

17. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Störf hjá Hagþjónustu landbúnaðarins eru lögð niður frá og með 1. janúar 2012. Ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gilda um starfsmenn, eftir því sem við á.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hagþjónusta landbúnaðarins lítil stofnun, sem starfað hefur í 20 ár, frá árinu 1990. Stofnunin er á Hvanneyri í sveitarfélaginu Borgarbyggð. Í fjárlögum fyrir árið 2011 er henni ætlað 24,8 millj. kr. framlag, umfram tekjur, en hún hefur áætlaðar sértekjur að fjárhæð 3,1 millj. kr. (fjárlagaliður 04-487). Við stofnunina eru 2,9 stöðugildi.
    Hinn 14. apríl 2010 setti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á fót vinnuhóp til að fara yfir starfsemi Hagþjónustu landbúnaðarins og gera tillögur um það hvernig hún gæti best þjónað landbúnaðinum. Í hópnum sátu fulltrúar frá ráðuneytinu, Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtökum Íslands og Hagstofu Íslands. Hópnum var ætlað að leggja mat á starfsemi stofnunarinnar og gera tillögur um mögulegar breytingar á starfsemi hennar. Markmið starfsins var að framtíðarfyrirkomulag stofnunarinnar verði í senn skilvirkt og hagkvæmt, en gera verði ráð fyrir því að núverandi fjárhagsrammi hennar geti skerst enn frekar.
    Í minnisblaði vinnuhópsins til ráðherra dags. 28. júní 2010 eru lögbundin markmið í rekstri stofnunarinnar tilfærð og lagt mat á það hvernig þau hafi tekist næstliðin ár. Greint er frá því að Bændasamtökin sinni verkefnum sem heyra undir stofnunina skv. 1.–3. mgr. 2. gr. laganna, þ.e. veiti bændum bókhaldsleiðbeiningar o.fl. Um það var gerður samningur milli stofnunarinnar og samtakanna haustið 1993. Þá er rakið hvernig íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir umfangsmiklum breytingum, sem munu auka þörf fyrir ráðgjöf og öflun hagtalna á nýjum sviðum. Jafnframt er gerð grein fyrir starfsemi Landbúnaðarháskóla Íslands, einkum áherslum næstliðin ár, t.d. á sviði skipulagsþróunar og byggðaþróunar. Sökum þess hversu Hagþjónusta landbúnaðarins er aðkreppt fjárhagslega og í ljósi mögulegra samlegðaráhrifa, ef hún yrði sameinuð öðru stjórnvaldi, gerir vinnuhópurinn tillögur að þremur leiðum til stefnumörkunar. Í fyrsta lagi að stofnunin verði sameinuð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, í öðru lagi að hún verði sameinuð nýrri „Greiðslustofnun landbúnaðarins“ og/eða Matvælastofnun og í þriðja lagi að hún verði rekin með óbreyttu fyrirkomulagi.
    Vinnuhópurinn telur að óbreytt fyrirkomulag á rekstri stofnunarinnar sé „tæplega kostur í stöðunni“. Bent er á að blikur séu á lofti um auknar niðurfærslur fjárlagaheimilda á komandi árum og að óvissa sé um sértekjur stofnunarinnar, en stærsti liður þeirra, þ.e. framlög samkvæmt samningi við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti um færslu lögbýlaskrár, verði að líkindum ekki framlengdur. Þá aðeins verði unnt að mæla með óbreyttu fyrirkomulagi að framlög til stofnunarinnar verði stóraukin.
    Með stjórnarfrumvarpi þessu er lagt til að stofnunin verði lögð niður og verkefni hennar færð til ráðherra sem síðan geri samning um framkvæmd þeirra við til þess hæfan aðila hverju sinni. Með því er mögulegt að tryggja eðlilegan framgang á mikilsverðum verkefnum Hagþjónustunnar með sveigjanlegum hætti. Gert er ráð fyrir því að Landbúnaðarháskóli Íslands taki við verkefnum stofnunarinnar að miklu leyti. Þegar er í gildi þjónustusamningur milli ráðuneytisins og háskólans um þjónustu á sviði rannsókna, þróunarvinnu og sérhæfðrar ráðgjafar, fyrir árin 2009–2012. Hægast er að endurskoða þann samning um þetta málefni. Með því yrði skólinn styrktur á sviði landbúnaðarhagfræði og hlúð að kennslu á því sviði. Um leið kemur til álita að gera þjónustusamning við Hagstofu Íslands og Háskóla Íslands. Gert er ráð fyrir því að fjárlagaliðurinn 04-487 verði nýttur til þess.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að stofnunin Hagþjónusta landbúnaðarins verði lögð niður. Um leið er eðlilegt að árétta forræði ráðherra á framkvæmd laganna.

Um 2. gr.


    Með þeim breytingum sem lagðar eru til með greininni er áhersla færð yfir á hagrannsóknir sem þjóna þeim tilgangi að undirbyggja leiðbeiningarstarfsemi í landbúnaði og gagnast stjórnvöldum við stefnumótun. Brott eru numin ákvæði sem ekki eiga lengur við eða ekki er lengur talin þörf á, svo sem umsjón með þróun bókhaldsforrita, skipulegt fræðslu- og leiðbeiningarstarf sem er í verkahring leiðbeiningarþjónustunnar og frumkvæði að áætlunargerð o.fl., en þar á það sama við.

Um 3. og 4. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.

Um 5. gr.


    Í samræmi við það sem segir í almennum athugasemdum er hér lagt til að ráðherra hafi heimild til að gera samning um framkvæmd verkefna samkvæmt lögunum. Til nánari skýringar á framkvæmd þessa má vísa til 1. mgr. 30. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Þar er gert ráð fyrir því að gerðir séu samningar um rekstrarverkefni, sem undir ráðuneyti heyra, til lengri tíma en eins árs við þá ríkisstofnun sem sinnt hefur verkefninu, aðrar ríkisstofnanir, sveitarfélög eða einkaaðila, enda sé áætlað fyrir verkefninu í fjárlögum. Síðan segir: „Með rekstrarverkefni er átt við afmarkaða rekstrarþætti eða rekstur ríkisstofnunar í heild sinni vegna viðfangsefna eða þjónustu sem ýmist er kveðið á um í lögum að ríkið skuli veita og standa undir kostnaði af eða eru liðir í því að ríkisaðili geti rækt hlutverk sitt.“ Þessi grein getur þó ekki átt við að því leyti að einkaaðila verður ekki falið að annast þau verkefni sem hér um ræðir, enda eru þau þess eðlis að þau verða með réttu aðeins falin opinberum aðila.
    Rétt er einnig að vísa til 5. mgr. lagagreinarinnar, en þar segir: „Í samningi um rekstrarverkefni samkvæmt þessari grein skal m.a. skilgreina umfang og gæði þeirrar þjónustu sem ríkissjóður kaupir, samningstíma, greiðslur úr ríkissjóði, eftirlit með þjónustu og meðferð ágreiningsmála. […] Fjármálaráðherra skal setja nánari reglur um undirbúning, gerð og eftirlit með samningum samkvæmt þessari grein og um þær almennu kröfur sem gera skal til samningsaðila, svo sem um fjárhagslegt bolmagn, faglega þekkingu og aðstöðu.“ Þessi ákvæði fjárreiðulaga munu gilda um þann samning sem hér um ræðir. Þó er rétt að athuga að val á samningsaðila er fært til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem getur því gengið beint til viðræðna við hann.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar, en vísa má til athugasemda við 7. gr.

Um 7. gr.


    Í 7. gr. gildandi laga segir að heimilt sé að greiða fyrir „öflun sérstakra upplýsinga sem nauðsynlegar eru vegna verkefna stofnunarinnar“. Lagt er til að þessi heimild verði látin óröskuð en brott falli áskilnaður um að greiðslurnar skuli vera „samkvæmt viðmiðunargjaldskrá sem landbúnaðarráðherra setur“.
    Hagþjónusta landbúnaðarins hefur, frá því hún tók til starfa, í fyrsta lagi greitt þóknun til einstakra bænda sem færa bókhald fyrir aðra bændur, búnaðarsambanda, búnaðarsamtaka og í einstökum tilvikum til bókhaldsstofa vegna söfnunar búreikninga og uppsetningar bókhaldsgagna, samkvæmt kröfum stofnunarinnar. Í öðru lagi greiddi stofnunin frá uphafi, til ársins 2005, þóknun til einstakra bænda sem héldu vinnuskýrslur í hefðbundnum greinum landbúnaðar, vegna vinnuskýrsluverkefnis stofnunarinnar. Í þriðja lagi hefur stofnunin greitt öðrum stofnunum fyrir samantekt sértækra upplýsinga vegna vinnslu gagna til birtingar í ritinu Hagur landbúnaðarins (sem kemur út annað hvert ár). Í fjórða lagi, er um að ræða öflun sértækra upplýsinga vegna vinnslu verkefna fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.
    Ekki hefur tekist að setja „viðmiðunargjaldskrá“ vegna þessara verkefna, þótt um árabil hafi það verið til umræðu. Í raun er þessi starfsemi þess eðlis að best fer á því að gefa svigrúm til að ákveða greiðslur hverju sinni innan fjárheimilda.

Um 8. gr.


    Lagt er til að 8. gr. laganna falli brott enda er hún talin úrelt.

Um 9.–14. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringar en í þeim felast eðlilegar breytingar sem leiða af því að Hagþjónusta landbúnaðarins er lögð niður.

Um 15. gr.


    Í 2. mgr. 8. gr. ábúðarlaga, nr. 80/2004, segir að tilkynna skuli Hagþjónustu landbúnaðarins um nýja ábúðarsamninga. Sú tilkynningarskylda er óþörf, enda ber að þinglýsa samningunum, sbr. 1. mgr. lagagreinarinnar. Lagt er til að ákvæðið falli brott af þeim sökum.

Um 16. og 17. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum
um Hagþjónustu landbúnaðarins, nr. 63/1989, lögum um
framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993,
ábúðarlögum, nr. 80/2004, og lögum um búfjárhald, nr. 103/2002
(niðurlagning Hagþjónustu landbúnaðarins).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að Hagþjónusta landbúnaðarins verði lögð niður frá og með 1. janúar 2012. Stofnunin hefur verið starfrækt frá árinu 1990 og hefur aðallega sinnt vinnslu upp úr búreikningum bænda, hagtölusöfnun fyrir landbúnaðinn, hagrannsóknum, kennslu í búnaðarhagfræði, ásamt ýmsum öðrum tilfallandi verkefnum. Á árinu 2009 störfuðu fimm starfsmenn hjá stofnuninni en þar af voru þrír fastráðnir og tveir verkefnaráðnir. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ákveðin verkefni stofnunarinnar verði flutt til ráðherra sem síðan geri samninga um framkvæmd þeirra við þar til bæra aðila hverju sinni. Þau verkefni sem áætlað er að sinnt verði áfram eru hagrannsóknir í landbúnaði og söfnun og vinnsla úr búreikningum bænda. Gagnasöfnunin og úrvinnslan skuli miðast við að nýtast sem best til opinberrar hagskýrslugerðar um framleiðslu, rekstur og efnahag einstakra búgreina. Í því sambandi hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið gert ráð fyrir að stærstur hluti þeirra verkefna sem áfram verði starfrækt fari til Landbúnaðarháskóla Íslands og aðrir hlutar til Hagstofu Íslands og Háskóla Íslands. Ráðuneytið áformar að gengið verði frá samningum við hlutaðeigandi aðila áður en stofnunin verður lögð niður til að tryggja samfellu í verkefnum. Á þessu stigi liggur hins vegar ekki fyrir hjá ráðuneytinu áætlun um skiptingu verkefna á milli aðila né mat á þörf fyrir fjárveitingar til að sinna þeim.
    Við niðurlagningu stofnunarinnar munu fjárveitingar hennar falla niður frá og með fjárlögum 2012 en þær eru annars vegar 27,9 m.kr. útgjaldaheimild og sértekjur að fjárhæð 3,1 m.kr. Þannig er gert ráð fyrir 24,8 m.kr. greiðslu úr ríkissjóði í gildandi fjárlögum. Gera þarf tillögur um nýjar fjárveitingar til þeirra verkefna sem fyrirhugað er að gera samstarfssamninga um. Í því sambandi má nefna að rúmar 3,3 m.kr. eru nú greiddar í húsaleigu fyrir stofnunina og forstöðumann hennar á ári, auk afleidds kostnaðar í tengslum við rekstur stofnunarinnar svo sem rekstur bifreiðar og bókhaldsþjónusta, stjórnarlaun o.s.frv. sem ekki ætti að falla til eftir að verkefnin hafa verið færð til annarra aðila. Því er ljóst að eitthvað hagræði gæti skapast verði stofnunin lögð niður þó svo það hafi ekki verið metið sérstaklega. Á móti kemur að starfsmenn eiga rétt á biðlaunum ef þeim verður ekki boðið sambærilegt starf við verkefnin hjá nýjum rekstraraðilum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur metið að þessi einskiptis kostnaður gæti numið allt að 13 m.kr. ef starfsmenn geta nýtt sér að fullu þann biðlaunarétt sem skapast. Það liggur þó ekki fyrir hvernig með málin verður farið eftir að stofnunin hefur verið lögð niður og verkefnin flutt annað.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má því gera ráð fyrir að 27,9 m.kr. fjárveiting til Hagþjónustu landbúnaðarins falli niður frá og með fjárlögum 2012 en að á móti geti komið framlög til að standa undir samstarfssamningum við aðila sem taka við stærstum hluta af verkefnum stofnunarinnar. Ekki er hægt að leggja mat á þau útgjöld á þessu stigi þar sem ekki liggja fyrir útfærðar áætlanir um fyrirkomulag og tilkostnað þeirra verkefna. Þá gæti niðurlagning stofnunarinnar leitt til aukinna tímabundinna útgjalda vegna starfslokasamninga að fjárhæð allt að 13 m.kr.